Innlent

Íslenska þjóðfylkingin býður Ásmund Friðriksson velkominn

Bjarki Ármannsson skrifar
Nýstofnaður flokkur sem berst gegn fjölmenningu fagnar ummælum þingmanns Sjálfstæðisflokksins um flóttafólk.
Nýstofnaður flokkur sem berst gegn fjölmenningu fagnar ummælum þingmanns Sjálfstæðisflokksins um flóttafólk. Vísir
Stjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar, nýstofnaðs stjórnmálaflokks sem leggst gegn fjölmenningu á Íslandi, lýsir yfir stuðningi við ummæli Ásmundar Friðrikssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, um flóttafólk.

Flokkurinn hvetur Ásmund til að ganga í þeirra raðir og býður hann velkominn „með hliðsjón af því að forysta Sjálfstæðisflokksins leyfir ekki skoðanafrelsi og hefur fordæmt eðlileg og öfgalaus varúðarsjónarmið“ hans.

Ásmundur, sem áður hefur vakið athygli fyrir umdeild ummæli um innflytjendur, sagði á þingi í fyrradag að skoða þyrfti af fullri alvöru hvort rétt sé að snúa hælisleitendum til síns heima strax við komu þeirra til landsins. Ræða þyrfti mögulegar breytingar á opnum landamærum landsins.

Ummælin hafa víða verið fordæmd og gagnrýnd, jafnt af stjórnarandstöðumönnum sem og samflokksmönnum Ásmundar.

Í fréttatilkynningu frá Íslensku þjóðfylkingunni segir að rík ástæða sé til þess að herða eftirlit á landamærum Íslands, meðal annars með því að ganga úr Schengen-samstarfinu, og velja sjálf þá hælisleitendur sem boðnir eru velkomnir til landsins.

Stjórn íslensku þjóðfylkingarinnar skipa þrír menn. Í stefnuskrá flokksins segir að hugmyndum um fjölmenningu hér á landi sé hafnað og að flokkurinn muni berjast gegn byggingu moska hér á landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×