Erlent

Ríkasti maður Kína varar við úrsögn Breta úr Evrópusambandinu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Wang Jianlin er ríkasti maður Kína.
Wang Jianlin er ríkasti maður Kína. Vísir/Getty
Wang Jianlin, ríkasti maður Kína, hefur hvatt Breta til þess að yfirgefa ekki Evrópusambandið þegar kosið verður um það 23. júní næstkomandi. Hann telur að fjöldi kínverskra fyrirtækja muni flytja starfsemi sína frá Bretlandi ef af því verður.

Í frétt The Sunday Times um málið kemur fram að Wang Jianlin, stofnandi Dalian Wanda sem rekur meðal annars skútur og er að byggja fimm stjörnu hótel í London, telji að úrsögn úr ESB væri ekki rétt ákvörðun fyrir Bretland. Hann bendir á að það myndi skapa erfiðleika og hindranir fyrir fjárfesta, auk vegabréfsáritunarvandamála fyrir ferðamenn.

Eftir að tilkynnt var um kosningarnar í síðustu viku hrundi gengi pundsins á móti dollara um 3,8 prósent, sem er mesta lækkun síðan í efnahagskreppunni 2008. Á þriðjudaginn birti The Times yfirlýsingu sem þriðjungur hundrað stærstu fyrirtækja Bretlands, svokölluð FTSE 100 fyrirtæki, studdi um áframhaldandi veru í Evrópusambandinu.

Skiptar skoðanir eru á útgöngu Breta úr ESB. Boris Johnson, borgarstjóri London, lýsti því yfir að hann styddi þá stefnu, en margir aðrir stjórnmálamenn, meðal annars David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, vilja ekki úrsögn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×