Innlent

Skoða hvort æskilegt sé að fjölga fæðingarstöðum á ný

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Fæðingarstöðum hefur fækkað nokkuð undanfarin ár.
Fæðingarstöðum hefur fækkað nokkuð undanfarin ár. Mynd/Getty
Heilbrigðisráðuneytið skoðar nú hvort og með hvaða hætti væri æskilegt að fjölga á ný fæðingarstöðum og hækka þjónustustig á einhverjum sem fyrir eru. Fæðingarstöðum hefur fækkað nokkuð á undanförnum árum og áratugum því erfitt hefur reynst að manna stöður sérfræðinga eins og svæfingalækna og fæðingarlækna á litlum stofnunum í dreifbýli.

Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafney Magnúsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, um fækkun fæðingarstaða og ungbarnaeftirlit í dreifbýli. Kristján segir mikinn kostnað fylgja því að halda úti vöktum fyrir sérfræðinga, og að því hafi heilbrigðisstofnanir í dreifbýli dregið úr þeirri þjónustu.

Í svari Kristjáns kemur fram að fjöldi fæðinga á Íslandi hafi verið á bilinu 4300 til 4500 á ári undanfarin tíu ár. Samkvæmt fæðingarskrá fæddust níu börn á leið á fæðingarstað árið 2014, átta á árinu 2013, þrjú árið 2012 og eitt 2011. Ekki kemur fram hversu mörg börn fæðast á leið á fæðingarstað í þéttbýli og hversu mörg í dreifbýli.

Þá segir hann heilbrigðisyfirvöld vilja leitast við að tryggja jafnræði í aðgengi að bestu mögulegu fæðingarþjónustu með því að aðstoða fjölskyldur svo þær geti dvalið nærri fæðingarstað dagana fyrir áætlaða fæðingu barns, meðal annars með aðgengi að sjúkrahóteli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×