Innlent

Dæmdur fyrir skjalafals áður en hann varð lögmaður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hæstiréttur staðfesti átta mánaða skilorðsbundinn dóm yfir manninum snemma á síðasta áratug. Hann fór síðar í laganám.
Hæstiréttur staðfesti átta mánaða skilorðsbundinn dóm yfir manninum snemma á síðasta áratug. Hann fór síðar í laganám. Vísir/GVA
Héraðsdómslögmaður á fimmtugsaldri sætir gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn héraðssaksóknara á umfangsmiklu peningamisferli. Hann er einn fjögurra sem verða í gæsluvarðhaldi fram á föstudag en þangað til á mánudag var hann verjandi eins hinna þriggja. Vísir greindi frá málinu í morgun en lögmaðurinn hefur áður hlotið dóma fyrir skjalafals.

Lögmaðurinn var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals snemma á síðasta áratug en málið var sérstakt. Rak hann spilaklúbb ásamt félögum sínum og framvísaði svo fjórum ávísunum, undirrituðum af einum félaganna, upp á milljón krónur hver og gerði tilraun til að leysa þá út í banka.

Reyndi að leysa út fjórar ávísanir upp á milljón krónur hver.Vísir
Ávísanirnar virðist hann hafa tekið úr tékkhefti eins félagans sem geymdi heftið í spilaklúbbnum. Þær voru undirritaðar af félaganum og sá sem sá um að gera upp hvert kvöld hafði leyfi til að fylla þær út.

Þegar maðurinn, sem síðar fór í laganám og er í dag starfandi héraðsdómslögmaður, reyndi að innleysa þær og þær reyndust innistæðulausar lét hann þá í lögfræðiinnheimtu. Átti hann þó engan rétt á greiðslu frá félaga sínum eins og segir í dómnum.

Í kjölfarið höfðaði hann einkamál á hendur félaga sínum að greiða milljónirnar fjórar en málið var að lokum fellt niður. Með þessari háttsemi taldi dómurinn fullsannað að maðurinn hefði notað fölsuð skjöl í þeim tilgangi að blekkja.

Við ákvörðun refsingar var tekið mið af því að brotið varðaði háar fjárhæðir og háttsemin benti til ákveðins brotavilja. Meðferð málsins tók hins vegar afar langan tíma eða um fjögur ár. Þótti því átta mánaða skilorðsbundinn dómur réttlætanlegur.

Þá hlaut lögmaðurinn einnig tvo dóma á sautjánda aldursári fyrir skjalafals.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×