Enski boltinn

Klopp hefur ekki áhuga á toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkenndi með semingi að hann og aðrir hjá Liverpool hafi engan áhuga á titilbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool tapaði í vítakeppni á móti Manchester City í úrslitaleik enska deildabikarsins um síðustu helgi en fær strax tækifæri til að hefna tapsins þegar liðin mætast aftur í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.

„Titilbaráttan er í raun ekki áhugaverð fyrir okkur. Það eru ekki bestu fréttirnar en það er sannleikurinn," sagði Jürgen Klopp á blaðamannafundi fyrir leikinn við Manchester City. Sky Sport segir frá.

Liverpool er 18 stigum á eftir toppliði Leicester City en hluti af hefnd Liverpool gæti verið að hjálpa Leicester með því að taka stig af Manchester City.

„Ef eitthvert lið ætlar sér að vera Englandsmeistari þá á liðið að vinna án hjálpar frá okkur. Ég er ekki að hugsa um hver vinni deildina í ár eins og staðan er núna. Það eru nokkur lið sem koma til greina en ég er bara hugsa um hvernig ég vinn leikinn á morgun," sagði Klopp.

Liverpool hefur aðeins unnið tvo af síðustu átta leikjum sínum í öllum keppnum þar af er annar þeirra á móti botnliði Aston Villa en hinn er á móti þýska liðinu Augsburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×