Erlent

Greindarvísitalan lækkar við meira sjónvarpsgláp

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Greindarvísitala Norðmanna fer lækkandi.
Greindarvísitala Norðmanna fer lækkandi. NORDICPHOTOS/GETTY
Greindarvísitala norskra stráka lækkar við það að horfa mikið á sjónvarp. Þetta er mat vísindamanna við rannsóknarstofnun Háskólans í Ósló sem borið hafa saman greindarpróf á vegum norska hersins frá 1992 til 2005 og aðgengi sveitarfélaga að dreifikerfi sjónvarpsstöðva.

Blaðið Dagens Næringsliv hefur það eftir einum vísindamannanna að því betra sem aðgengið var að sjónvarpsstöðvum, þeim mun meira hafði greindarvísitala stráka lækkað. Blaðið greinir frá því að hækkun greindarvísitölu norsku þjóðarinnar hafi verið jöfn í gegnum tíðina. Nýlega hafi hún hins vegar staðnað og sé nú farin að lækka.

Möguleg skýring, að mati sérfræðinganna, er að aukið aðgengi að skemmtiefni hafi leitt til meira sjónvarpsáhorfs. Það hafi síðan leitt til þess að strákarnir hafi varið minni tíma til annars eins og til dæmis lesturs.

Við rannsóknina var stuðst við gögn um þá sem fæddust á tímabilinu 1974 til 1987.

Greinin/fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×