Erlent

Rafvirki lét lífið við 250 metra fall

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/wilshiregrandcenter.com
Rafvirki lét lífið í gær þegar hann féll til jarðar úr um tvö hundruð og fimmtíu metra hæð. Hann var við störf í háhýsi í Los Angeles og féll niður 53 hæðir. Maðurinn lenti líklega á bíl á ferð en mikil umferð var á svæðinu þegar atvikið átti sér stað og göturnar fullar af fólki.

Verktakafyrirtækið sem heldur utan um byggingu háhýsisins segir að maðurinn hefði ekki mátt fara ofar en á þriðju hæð. Þá hafði hann tekið af sér hjálm sinn áður en hann féll og var ekki í öryggislínu.

Samkvæmt AP fréttaveitunni var ökumaður bílsins sem maðurinn er talinn hafa lent á flutt á sjúkrahús. Konan leit ekki út fyrir að hafa orðið fyrir meiðslum samkvæmt vitnum en var í mikilli geðshræringu vegna atviksins.

Alls vinna 891 við byggingu Wilshire Grand Tower og á hann að verða 73 hæða hár eða um 335 metrar á hæð. Reiknað er með að háhýsið verði tekið í notkun snemma á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×