Innlent

Játaði að hafa kveikt í húsnæði við Grettisgötu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi brunans.
Frá vettvangi brunans. Vísir/Egill Aðalsteinsson
Karlmaður á fertugsaldri hefur játað að hafa kveikt í iðnaðarhúsnæði við Grettisgötu 87 í Reykjavík mánudagskvöldið 7. mars.

Í tilkynningunni frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að maðurinn, sem hefur glímt við andleg veikindi, dvelji nú á viðeigandi stofnun.

Lögreglan handtók einnig annan mann í þágu málsins, en sá var sömuleiðis á vettvangi þegar eldurinn kom upp. Rannsókn lögreglu leiddi hins vegar í ljós að síðarnefndi maðurinn kveikti ekki eldinn.

Eldurinn á Grettisgötu 87 kom upp eins og áður segir þann 7. mars síðastliðinn. Mikið tjón varð í brunanum en í húsinu var meðal annars réttingaverkstæði, líkamsræktarstöð og vinnustofa listamanna.

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út vegna brunans sem kom upp um átta að kvöldi en búið var að ráða að niðurlögum eldsins um klukkan fjögur um nóttina. Engan sakaði í brunanum en nágrönnum var ráðlagt að halda sig innandyra vegna hættu á reykeitrun.


Tengdar fréttir

Merkileg menningarsaga Grettisgötu 87

Í húsinu var meðal annars að finna einu elstu líkamsrætkarstöð landsins og kjallara sem eitt sinn hýsti fyrsta æfingarhúsnæði Sigur rósar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×