Erlent

Sýrlendingar mótmæla í vopnahléinu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mótmælendur komu saman í borginni Aleppo á mánudaginn, og spöruðu ekki stóryrðin gegn Assad forseta og Rússum.
Mótmælendur komu saman í borginni Aleppo á mánudaginn, og spöruðu ekki stóryrðin gegn Assad forseta og Rússum. Nordicphotos/AFP
Stjórnarandstæðingar í Sýrlandi hafa notað tækifærið í stuttu vopnahléi til þess að mótmæla stjórn Bashars al Assad forseta, sem þeir kenna enn alfarið um borgarastyrjöldina sem nú hefur staðið yfir í sex ár.

Vopnahléið hófst fyrir tæpum tveimur vikum og að mestu hafa bæði stjórnarherinn og uppreisnarhópar staðið við loforð sín og haldið aftur af sér.

Ekki liðu margir átakalausir dagar áður en fólk tók að flykkjast út á götur með mótmælaspjöld og hrópandi slagorð gegn Assad.

„Sýrland er fagurt, án Assads verður það stórkostlegt,“ hljóðar eitt slagorðið, samkvæmt frásögn á fréttavef þýska vikuritsins Die Zeit.

Á einu mótmælaspjaldinu stóð: „Sýrland er orðið að bananatré: Allir apar vilja klifra upp í það.“

Á öðru stóð: „Vopnahlé þýðir ekki að byltingin hafi stöðvast.“

Öfgasamtök á borð við Íslamska ríkið og Al Nusra-fylkinguna eru reyndar ekki aðilar að vopnahléinu, þannig að bæði Bandaríkjamenn og Rússar hafa haldið áfram loftárásum á yfirráðasvæði þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×