Erlent

Fárviðri gengur yfir Bretlandseyjar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Stormurinn Katie hefur haft mikil áhrif á samgöngur í Bretlandi í dag og í nótt.
Stormurinn Katie hefur haft mikil áhrif á samgöngur í Bretlandi í dag og í nótt. Vísir/AFP
Fárviðri gengur nú yfir Bretlandseyjar og hefur sett daglegt líf þar úr skorðum, meðal annars flugsamgöngur.

Annar dagur páska er jafn stór dagur í Bretlandi. Stormurinn sem gekk á landi í gærkvöldi hefur valdið talsverðum röskunum á samgöngum. Yfir 60 flugferðum um Heathrow hefur verið aflýst og 20 flugvélum vísað annað til lendingar vegna fárviðrisins sem fengið hefur nafnið Katie.

Á Gatwick-flugvelli var 23 vísað til lendinga annarstaðar á Bretlandseyjum. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur fárviðrið þó ekki haft áhrif á flugsamgöngur á milli Bretlands og Íslands.

Í verstu hviðunum hefur vindhraðinn mælst allt að 47 metrar á sekúndu og hafa tré rifnað upp með rótum og lent á rafmagnslínum. Fyrir vikið voru yfir 80 þúsund heimili án rafmagns þegar verst lét.

Fram kemur á vef BBC að starfsmenn rafveitna hafi verið að störfum í alla nótt en enn eru um fimm þúsund heimili án rafmagns.

Fárviðrinu fylgir víða mikil rigning og hafa verið gefnar út 23 flóðaviðvaranir vegna vatnavaxta. Má því búast við frekari truflunum á samgöngum í Bretlandi í dag.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×