Erlent

Líklegt að hauskúpu Shakespeare hafi sannarlega verið stolið

Birta Björnsdóttir skrifar
Nútímatækni hefur rennt stoðum undir eina af lífseigari kenningum bókmenntasögunnar, að hauskúpu Williams Shakespeare hafi í raun verið stolið úr gröf hans.

Árið 1879 birtist frétt í tímaritinu The Argosy um að grafræningjar hefðu gert áhlaup að gröf Williams Shakespeare hundrað árum áður og stolið þaðan hauskúpu skáldsins. Fréttin var síðar afskrifuð sem slúður enda erfitt að sanna nokkuð í þessum efnum án þess að raska ró Shakespeares í gröf sinni í kirkju hinnar heilögu þrenningar í Stratford.

Með nútíma tækni tókst vísindamönnum nýlega að mynda gröf skáldsins án þess að hrófla við neinu. Þar kom meðal annars í ljós að allt útlit er fyrir að jarðneskar leifar Shakespeares hvíli höfuðlausar í gröf sinni.

Ýmislegt hefur talið styrkja þessa lífseigu sögu, meðal annars sú staðreynd að gröf Shakesepeares þykir styttri en almennt var siður. Sömu vísindamenn hafa nú komist að því að ástæðan er líklega framkvæmdir sem gerðar voru á gólfinu í kirkjunni hafa valdið því að þrengra var um þetta þekktasta leikskáld fyrr og síðar, en almennt var.

Uppgötvunin verður kynnt rækilega í heimildarmyndinni Secret History: Shakespeare´s Tomb sem sýnd verður á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4 í kvöld, að því er segir í frétt BBC.

Í myndinni kemur ýmislegt annað áhugavert í ljós. Meðal annars þykir nú sannað að Shakespeare og eiginkona hans, Anne Hathaway, hvíla á einungis meters dýpi, rétt undir kirkjugólfinu, en ekki í djúpri fjölskylduhvelfingu eins og áður var talið.

Þá þykir líklegt að þau hjónin hafi ekki hvílt í líkkistum, heldur hafi líkamar þeirra verið vafðir í lök fyrir greftrun. Í ár eru 400 ár liðin frá því að William Shakespeare lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×