Erlent

Dul­kóðunar­bar­áttu FBI og App­le lokið í bili

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Baráttu Apple og FBI fyrir dómstólum virðist lokið í bili.
Baráttu Apple og FBI fyrir dómstólum virðist lokið í bili. vísir/getty
Prófmál FBI gegn Apple, þar sem á reyndi hvort tæknirisanum væri skylt að aflæsa síma fjöldamorðingja, gæti hafa fengið snöggan og óvæntan endi á dögunum þegar FBI fékk leyfi til að fresta málflutningi í málinu. Ástæðan er sögð vera sú að ísraelskt fyrirtæki sé fært um að veita þá þjónustu sem Apple vildi ekki.

Fari svo að tækni fyrirtækisins virki er engin ástæða til að halda málarekstri áfram fyrir dómstólum. Apple hefur staðið í ströngu gegn FBI að undanförnu og neitað að aflæsa símum glæpamanna. Þar á meðal mann sem bar ábyrgð á skotárás í San Bernardino þar sem fjórtán almennir borgarar féllu auk tveggja árásarmanna.

Apple hefur meðal annars neitað að aflæsa símunum á þeim grundvelli að komist slíkt forrit í rangar hendur aukist hætta á árásum á síma almennra borgara. Halla myndi á friðhelgi einkalífsins á tækniöld.

„Við eigum eftir að skoða hvort tæknin virki sem skyldi og hvort gögn á símum séu ósködduð eftir notkun forritsins,“ sögðu lögmenn alríkisyfirvalda í bókun sem lögð var fyrir dómara málsins. „Við förum fram á frestun málsins á meðan þessi möguleiki er kannaður. Virki hann sem skyldi er engin ástæða til að halda rekstri málsins áfram.“

Málin voru talin skólabókardæmi um mál sem myndi enda fyrir hæstarétti landsins þar sem látið yrði reyna á hvort framkvæmdin stæðist stjórnarskrá landsins. Virki ísraelska tæknin sem skyldi er útlit fyrir að ekkert verði af slíkum dómi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×