Erlent

Milljónamæringar í New York vilja borga hærri skatta

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
New York-borg er fjölmennasta borgin í New York-ríki
New York-borg er fjölmennasta borgin í New York-ríki vísir/getty
Fjörutíu milljónamæringar í New York-ríki í Bandaríkjunum rita í dag opið bréf til ríkisstjórans Andrew Cuomo þar sem þeir biðla til hans að breyta skattalöggjöfinni í ríkinu svo að þeir ríku myndu borga meira til samfélagsins.

 

„Sem íbúar í New York sem bæði hafa lagt sitt af mörkum til efnahagsins í ríkinu og notið góðs af honum þá lítum við svo á að við berum þá ábyrgð að leggja meira af mörkum til samfélagsins,“ segir meðal annars í bréfinu.

Í bréfinu leggja milljónamæringarnir til ákveðna áætlun sem  þeir kalla „Áætlun 1 prósentsins um sanngjarnar skattgreiðslur“, en nafnið vísar í eitt prósent þeirra sem eiga mestan auð í heiminum.

Milljónamæringarnir segjast hafa miklar áhyggjur af stöðu mála í New York þar sem of margir íbúar ríkisins búi við fátækt og innviðir samfélagsins ráða illa við vandamálin.

„Það er til skammar að aldrei hafa fleiri börn búið við fátækt í New York en einmitt nú [...]. Aldrei hafa fleiri fjölskyldur verið heimilislausar en meira en 80 þúsund manns eru á vergangi um ríkið og reyna að lifa af,“ segir í bréfinu.

Á meðal þeirra sem rita undir bréfið eru Steven Rockefeller, sem er af fjórðu kynslóð hinnar vellauðugu Rockefeller-fjölskyldu, o gJoshua Mailman, sonur Joseph Mailman, sem var viðskiptajöfur og þekktur fyrir góðgerðarstarfsemi sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×