Íslenski landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason skoraði í sínum öðrum leik leik í röð í Bundesligunni um helgina þegar hann gerði eina mark Augsburg í 3-1 tapi á móti Borussia Dortmund.
Það er ekki á hverjum degi sem íslenskur fótboltamaður skorar á móti þessu eina öflugasta liði Þýskalands og það voru liðin rétt tæp 23 ár síðan að Íslendingur skoraði síðast deildarmark á móti liði Borussia Dortmund.
Alfreð var líklega nýbyrjaður á leikskóla þegar Eyjólfur Sverrisson skoraði eitt marka Stuttgart í óvæntum 4-0 útisigri á Borussia Dortmund 15. maí.
Eyjólfur hafði einnig náð því að skora þrennu á móti Borussia Dortmund rúmum tveimur árum fyrr.
Þrír aðrir íslenskir leikmenn hafa skorað á móti Borussia Dortmund í Bundesligunni en það eru þeir Lárus Guðmundsson, Ásgeir Sigurvinsson og Atli Eðvvaldsson. Atli var fyrstur og afrekaði það einni í tveimur leikjum.
Alfreð hefur nú skorað 3 mörk og gefið 2 stoðsendingar í fyrstu 7 leikjum sínum með Augsburg í Bundesligunni.
Það er hægt að sjá markið hans Alfreðs á móti Dortmund í spilaranum hér fyrir ofan.
Íslensk mörk á móti Borussia Dortmund í Bundesligunni
Atli Eðvvaldsson
2 fyrir Fortuna Düsseldorf á móti Dortmund 9. október 1982
1 fyrir Fortuna Düsseldorf á móti Dortmund 25. mars 1983
Lárus Guðmundsson
1 fyrir Bayer 05 Uerdingen á móti Dortmund 5. október 1985
Ásgeir Sigurvinsson
1 fyrir Stuttgart á móti Dortmund 19. apríl 1986
Eyjólfur Sverrisson
3 fyrir Stuttgart á móti Dortmund 23. febrúar 1991
1 fyrir Stuttgart á móti Dortmund 14. maí 1993
Alfreð Finnbogason
1 fyrir Augsburg á móti Dortmund 20. mars 2016
23 ár síðan að Íslendingur skoraði síðast á móti Dortmund
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar