Erlent

Fimmtán ára baráttu Argentínumanna við kröfuhafa að ljúka

Atli Ísleifsson skrifar
Samþykkt þingsins er talin mikill sigur fyrir Mauricio Macri Argentínuforseta.
Samþykkt þingsins er talin mikill sigur fyrir Mauricio Macri Argentínuforseta. Vísir/AFP
Argentínska þingið hefur samþykkt samning Mauricio Macri, forseta Argentínu, um endurgreiðslur við erlendra kröfuhafa. Því sér loks fyrir endann á fimmtán ára baráttu samningsaðila.

Deilur um skuldir Argentínu hafa takmarkað aðgengi argentínska ríkisins að erlendu lánsfé og hamlað viðskipti í landinu.

Samningurinn er gerður við kröfuhafa í New York, en deilurnar má rekja til þess að Argentína gat ekki staðið skil á 100 milljarða Bandaríkjadala láni árið 2001.

Samningurinn um endurgreiðslur voru loks samþykktar í efri deild argentínska þingsins í gær eftir maraþonfund.

Macri forseti varaði þingmenn við að ef samningurinn yrði ekki samþykktur myndu þeir dæma Argentínu til áframhaldandi útskúfunar á erlendum mörkuðum.

Samþykkt þingsins er talin vera mikill sigur fyrir Macri forseta sem samdi við kröfuhafa í kjölfar sigurs síns í forsetakosningum landsins í nóvember. Stjórn fyrrverandi forseta, Cristina Fernandez de Kirchner, hafði neitað að semja við kröfuhafa sem hún kallaði „hrægammasjóði“.

Í frétt BBC segir að samningurinn feli meðal annars í sér 4,7 milljarða Bandaríkjadala greiðslu til þeirra sjóða sem kærðu argentínska ríkið fyrir bandarískum dómstólum vegna vanefnda.

54 þingmenn efri deildar þingsins samþykktu samninginn, en sextán greiddu atkvæði gegn honum. Áður hafði neðri deild þingsins samþykkt samninginn með 165 atkvæðum gegn 86.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×