Innlent

Almenningur fái að segja hug sinn til stjórnarinnar í kosningum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. vísir/valli
„Mér heyrist á Sigmundi Davíð að hann kalli á að vantrauststillaga verði lögð fram því hann telur verk sín svo góð. Úr því að verkin eru svo framúrskarandi þá ætti að vera leikur einn fyrir hann að endurnýja stuðning sinn í almennum kosningum,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, kímin í samtali við Vísi.

Þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar funduðu í dag í ljósi þess sem fram hefur komið á síðustu dögum. Formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna auk varaformanns Sjálfstæðisflokksins tengjast aflandsfélögum og einnig hefur komið á daginn að eiginkona forsætisráðherra átti hundruða milljóna kröfu í slitabú föllnu bankanna.

„Á fundinum undirbjuggum við fyrstu viðbrögð fyrir þingfund á mánudaginn. Það fyrsta sem stefnt er að er að boða til opins fundar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og helst að boða umboðsmann Alþingis á hann,“ segir Birgitta.

Hún segir vert að hafa í huga að sé tillaga um vantraust lögð fram þá geti það haft áhrif á umboðsmann Alþingis og þær rannsóknir sem hann getur lagst í. „Við komum okkur saman um á fundinum að leggja fram þingsályktunartillögu um þingrof sem ráðherra verður að framkvæma fáist tillagan samþykkt.“

Þingmaðurinn segir að mikil óánægja sé í samfélaginu og krafan um kosningar og afsögn forsætisráðherra sé hávær. Til að mynda hafi verið boðað til mótmæla þegar þingið kemur saman á ný eftir páskafrí. „Okkur er algjörlega misboðið og við finnum fyrir miklum þrýstingi um að bregðast við. Við teljum þingrofsverkfærið það besta í stöðunni því með því móti fær almenningur að segja hug sinn í almennum kosningum.“

„Framundan er afnám hafta og það hefur verið mikið rætt um einkavæðingu banka ríkisins. Það er einfaldlega algerlega óboðlegt að þetta fólk, sem fer fyrir þessari ríkisstjórn, fái að koma að því ferli eftir það sem hefur komið í ljós síðustu daga,“ segir Birgitta að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×