Erlent

Mótmæla við Downing stræti 10 að íslenskri fyrirmynd

Birgir Olgeirsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/Getty
„Íslendingar sættu sig ekki við spilltan forsætisráðherra og við ættum ekki að gera það heldur,“ segja þeir sem hafa boðað til mótmæla fyrir utan forsætisráðherrabústaðinn í Downingstræti 10 í Lundúnum. David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur viðurkennt að hafa átt hlut í aflandsfélagi föður síns. Hann seldi sinn hlut með hagnaði fjórum mánuðum áður en hann varð forsætisráðherra.

Mikill þrýstingur hefur verið á Cameron í Bretlandi eftir að Panama-skjölin leiddu í ljós að faðir hans heitinn, Ian Cameronstofnaði félag á Bahama-eyjumBlairmore Holdings, á níunda áratug síðustu aldar sem gerði honum kleift að forðast skattgreiðslur á Bretlandseyjum.

Tæp tvö þúsund manns hafa boðað komu sína á mótmælin fyrir utan Downingsstræti og hafa 5,4 þúsund lýst yfir áhuga á þeim á viðburðasíðu mótmælanna á Facebook.

Þeir sem boða til mótmælanna segja ljóst að David Cameron og fjölskylda hans hafi hagnast gífurlega á skattaskjólum á meðan hann hefur sjálfur talað um hversu ósanngjörn slík skjól eru.

„Hann er lygari og hræsnari og kominn tími á að hann segi af sér.“

Cameron hafði farið undan í flæmingi vegna málsins þar til í gær þegar hann viðurkenndi að hafa keypt hlut í aflandsfélagi föður síns fyrir 12,5 þúsund pund og seldi fyrir 30 þúsund pund, sem nemur um 5,2 milljónum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag.

Forsætisráðherrann ítrekaði að hagnaður vegna félagsins hafi ávallt verið gefinn upp til skatts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×