Enski boltinn

Fjórða sætið dugar mögulega ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manchester United er í harðri baráttu um að komast í Meistaradeild Evrópu.
Manchester United er í harðri baráttu um að komast í Meistaradeild Evrópu. Vísir/Getty
Svo gæti farið að liðið sem hafnar í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í vor komist ekki í Meistaradeild Evrópu og verði þess í stað sett í Evrópudeild UEFA.

Manchester City og Liverpool eru enn á meðal þátttökuliða í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni og ef þeim tekst að fara alla leið og vinna keppnirnar myndu bæði lið hljóta sjálfkrafa þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Öllu jöfnu fá efstu fjögur lið ensku úrvalsdeildarinnar keppnisrétt í Meistaradeildinni en samkvæmt reglum UEFA er hverju landi heimilt að vera aðeins með fimm lið í Meistaradeildinni hvert tímabil.

Sem stendur er hvorugt lið meðal þriggja efstu í ensku deildinni. Það eru Leicester, Tottenham og Arsenal sem myndu því komast í deild þeirra bestu í Evrópu.

Ef að annað lið en Manchester City eða Liverpool myndi hafna í fjórða sæti þyrfti það að sætta sig við Evrópudeildina, ef að hin tvö liðin fagna sigri í Evrópukeppnunum tveimur í vor.

City er sem stendur í fjórða sæti ensku deildarinnar, einu stigi á undan grönnunum í Manchester United.

Manchester City mætir PSG í fyrri viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld en annað kvöld eigast við Dortmund og Liverpool í Evrópudeild UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×