Enski boltinn

Geir: Við erum ekki að borga neitt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
KSÍ þarf ekki að borga fyrir að halda æfingavellinum í lagi.
KSÍ þarf ekki að borga fyrir að halda æfingavellinum í lagi. vísir/stefán
„Ég hef bara aldrei heyrt þetta áður,“ sagði Geir Þorgeinsson, formaður KSÍ, við Vísi aðspurður út í frétt franska vefmiðilsins ledauphine.com um tíu milljóna króna greiðslu Knattspyrnusambandsins til að koma æfingavelli liðsins í Annecy í Frakklandi í almennilegt stand.

Strákarnir okkar halda til í bænum Annecy á meðan dvöl þeirra á EM í Frakklandi stendur en í frétt franska miðilsins kemur fram að Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, hafi misboðið aðstæður þegar hann kíkti í heimsókn í janúar.

Sjá einnig:Sveitastemning hjá strákunum á EM

Haldið er fram að KSÍ greiði 75.000 evrur eða ríflega tíu milljónir króna til að skipta um gras á æfingavellinum. Það er ekki rétt.

Það rétta er að Lars fór ásamt Geir, Heimi Hallgrímssyni og sendinefnd KSÍ til Annecy að skoða aðstæður í desember eftir að dregið var til riðlakeppni Evrópumótsins.

„Völlurinn var ekki í besta gæðaflokki þegar við sáum hann í haust en það voru hafnar framkvæmdir við að endurnýja völlinn og gera hann tipp topp. Kostnaðurinn við það er ekkert á okkar herðum samt,“ sagði Geir við Vísi.

Formaðurinn sagði enn fremur að Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, sér alfarið um að halda æfingavöllum þátttökuþjóðanna í sómasamlegu standi og útgjöldin væru á herðum þess.

„Við borgum ekki eitt né neitt. Það er UEFA sem sér um þetta. Við borgum enga peninga til að halda æfingavellinum í topp standi,“ sagði Geir Þorsteinsson.

Vísir hafði einnig samband við Gunnar Gylfason sem sér um landsliðsmál Íslands og hefur lengi starfað með og fyrir UEFA. Þetta kom álíka flatt upp á hann og tók hann undir orð Geirs um að UEFA sér um allan kostnað við svona mál. „Þessi frétt er bara röng,“ sagði Gunnar Gylfason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×