Handbolti

Strákarnir okkar í efsta styrkleikaflokki fyrir EM dráttinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir setja stefnuna á HM 2017 og EM 2018.
Strákarnir setja stefnuna á HM 2017 og EM 2018. vísir/getty
Íslenska karlalandsliðið í handbolta verður í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður til undankeppni EM 2018 sem fram fer í Króatíu. Þetta kemur fram á heimasíðu EHF. Drátturinn fer fram í Dubrovnik í Króatíu 14. apríl en mótið sjálft fer fram dagana 12.-28. janúar 2018.

Dregið verður í sjö fjögurra liða riðla og hefst keppni í nóvember á þessu ári og lýkur í júní 2017. Tvö efstu lið hvers riðils komast á EM auk liðsins sem nær bestum árangri af þeim sem hafna í þriðja sæti.

Þökk sé fimmta sætinu sem strákarnir okkar náðu á EM 2014 í Danmörku eru þeir í efsta styrkleikaflokki sem fyrr segir og sleppa því að mæta þjóðum á borð við Frakklandi, Spáni, Danmörku, Póllandi, Þýskalandi og Svíþjóð.

Fyrsti styrkleikaflokkur: Frakkland, Spánn, Danmörk, Pólland, Þýskaland, Svíþjóð, Ísland.

Annar styrkleikaflokkur: Makedónía, Rússland, Noregur, Ungverjaland, Slóvenía, Hvíta-Rússland, Austurríki.

Þriðji styrkleikaflokkur: Serbía, Tékkland, Svartfjallaland, Bosnía og Hersegóvína, Holland, Portúgal, Litháen.

Fjórði styrkleikaflokkur: Slóvakía, Lettland, Úkraína, Sviss, Ísrael/Rúmenía, Tyrkland/Belgía, Finnland/Lúxemborg.

Þremur einvígum í forkeppninni er enn ólokið eins og sést á fjórða styrkleikaflokki. Þeir leikir fara fram 6. og 10. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×