Sport

23 ára heimsmeistari lést eftir baráttu við krabbamein

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Noh er hér fyrir miðri mynd.
Noh er hér fyrir miðri mynd. Vísir/Getty
Noh Jin-Kyu, 23 ára skautaspretthlaupari frá Suður-Kóreu, lést í gær eftir tveggja ára baráttu við krabbamein.

Noh er fyrrum heimsmeistari í greininni en hann vakti mikla athygli þegar hann varð heimsmeistari í samanlögðu aðeins átján ára gamall á HM í Sheffield, Englandi. Ári síðar vann hann silfur á HM í Shanghai.

Hann var fyrst greindur með góðkynja æxli í vinstri öxl í september 2013 en frestaði aðgerð til að fjarlægja það til að geta keppt á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí síðar um veturinn.

Noh varð hins vegar fyrir því óláni að brjóta bein í olnboga á æfingu skömmu fyrir Ólympíuleikana og gat því ekki keppt þar. Hann gekkst undir aðgerð vegna brotsins en þá uppgötvaðist að einnig var að finna illkynja æxli í vinstri öxlinni.

Noh var afar sigursæll á stuttum íþróttaferli sínum en hann á alls níu verðlaun frá heimsmeistaramóti, þar af fimm gull.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×