Erlent

Flóttafólki frá Tyrklandi verði snúið við

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Yfir milljón flóttamenn hafa farið sjóleiðina frá Tyrklandi til Grikklands frá ársbyrjun í fyrra.
Yfir milljón flóttamenn hafa farið sjóleiðina frá Tyrklandi til Grikklands frá ársbyrjun í fyrra. vísir/epa
Gríska þingið hefur samþykkt ný lög sem kveða á um að snúa megi flóttafólki sem kemur ólöglega frá Tyrklandi aftur til baka. Samkomulag þess efnis á milli Evrópusambandsins og Tyrklands var samþykkt í síðasta mánuði.

Þingið þurfti að samþykkja lögin svo samkomulagið yrði að veruleika. Frumvarpið var samþykkt með 169 atkvæðum af 300. Tyrkir taka því við fyrsta hópi flóttafólks nú á mánudag.

Samkomulagið hefur verið harðlega gagnrýnt. Hjálparstofnanir hafa lýst yfir þungum áhyggjum vegna lítils undirbúnings og óttast það að fólkið muni sæta slæmri meðferð í Tyrklandi. Þá hefur verið boðað til mótmæla vegna málsins í flóttamannabúðum í Grikklandi á morgun en því hefur verið mótmælt víða um heim að undanförnu.

Samkvæmt samkomulaginu verða þeir flóttamenn sem koma til Grikklands frá Tyrklandi, án þess að hafa sótt þar um hæli, snúið umsvifalaust til baka frá og með næstkomandi mánudegi. Í staðinn verður liðkað til í viðræðum Tyrkja við Evrópusambandið ásamt því sem þeir fá aukna fjárhagsaðstoð.

Yfir milljón flóttamenn hafa farið sjóleiðina frá Tyrklandi til Grikklands frá ársbyrjun í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×