Tyrkneski herinn heldur því fram að þeir hafi fellt 32 vígamenn Íslamska ríkisins í norðurhluta Írak í dag. Vígamennirnir eru sagðir hafa gert árás á skriðdreka Tyrkja. Herinn segist hafa eyðilagt byggingu sem tíu vígamenn héldu til í og svo hafi 22 verið felldir þegar þeir reyndu að flýja af svæðinu.
Atvikið átti sér stað nærri borginni Mosul. Tyrkir eru með herstöð þar sem vígamenn hafa margsinnis ráðist á.
Samkvæmt AFP fréttaveitunni hefur frásögn hersins ekki verið staðfest.
Nánar tiltekið segir herinn að flugskeyti hafi verið skotið á skriðdreka nærri herstöð Tyrkja. Áhöfn skriðdrekans skaut á bygginu sem flugskeytinu var skotið frá. Þá reyndu menn að flýja í bílum og á mótorhjólum og voru þeir einnig felldir.
Tyrkir komu upp herstöð í Írak í desember og sögðu þeir þá að tilgangur hennar væri að vernda tyrkneska hermenn sem væru að þjálfa íraska hermenn. Herstöðin leiddi til deilna milli yfirvalda í Bagdad og Ankara. Í herstöðinni voru upprunalega um 300 hermenn og 20 skriðdrekar en þeim var fækkað eftir þrýsting frá yfirvöldum í Bandaríkjunum.
Tyrkir felldu tugi vígamanna í Írak
Samúel Karl Ólason skrifar
