Erlent

350 látnir vegna jarðskjálftans í Ekvador

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Tala látinna vegna jarðskjálftans í Ekvador er nú komin í 350. Kraftmikill jarðskjálfti varð þar um helgina og slösuðust minnst tvö þúsund manns. Björgunarmenn og almenningur hafa leitað lifenda í rústum frá því að skjálftinn skall á á laugardagskvöldið.

Líklegt þykir að talan muni hækka enn fremur á næstu dögum. Rafael Correa, forseti landsins, segir að björgunarmenn hafi víða fundið ummerki um að fólk væri á lífi í rústum húsa. Alþjóðlegar rústabjörgunarsveitir eru nú komnar til landsins

Um er að ræða stærsta jarðskjálfta á svæðinu í áratugi, en hann var 7,8 stig. Um 230 eftirskjálftar hafa einnig mælst samkvæmt BBC. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir og hafa tíu þúsund hermenn og 3.500 lögregluþjónar verið sendir til þeirra héraða Ekvador sem verst urðu úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×