Erlent

Tala látinna hækkar í Ekvador

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá borginni Portoviejo í Manabí
Frá borginni Portoviejo í Manabí vísir/afp
Að minnsta kosti 246 létust og 2500 eru slasaðir eftir jarðskjálftann í Ekvador á laugardagskvöld. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka því enn er fólk grafið í rústum víða í borgum og bæjum á norðvesturströnd landsins sem varð afar illa úti í skjálftanum.

Þá hefur það tafið björgunarstörf að aurskriður hafa fallið á vegi auk þess sem samgöngumannvirki skemmdust eða jafnvel eyðilögðust. Einnig er víða rafmagnslaust og vatnslaust.

Sjá einnig: Íslenskur skiptinemi í Ekvador: „Mundi það sem kennt er á Íslandi“

Upptök skjálftans voru á tæplega 20 kílómetra dýpi skammt frá bænum Muisne í héraðinu Esmeraldas. Skjálftinn var gríðarlega öflugur, eða 7,8 að stærð, og fannst ekki aðeins víða í Ekvador heldur einnig í Kólumbíu. Er þetta stærsti skjálfti í landinu í 40 ár.

Flestir hinna látnu hafa fundist í héraðinu Manabí, sem er næsta hérað við Esmeraldas á norðvesturströndinni. Þar hafa 203 fundist látnir og eyðilegging í héraðinu er mikil, ekki síst í  bænum Pedernales og borgunum Manta og Portoviejo.

Ástandið er hvað verst í Pedernales þar sem bæjarstjórinn hefur sagt að bærinn hafi verið nánast jafnaður við jörðu í skjálftanum. Talið er enn séu hundruð manna grafnir í rústum í bænum og eftir því sem tíminn líður eru minni líkur á að finna fólk á lífi. Það þótti því vera kraftaverki líkast þegar lítil stúlka fannst á lífi í rústum í Pedernales í dag.

Á myndbandinu hér að neðan má sjá eyðilegginguna eftir skjálftann í borginni Puertoviejo í Manabí.

Frá borginni Pedernalesvísir/epa
Frá Pedernalesvísir/epa

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×