Erlent

Jarðskjálfti kostaði hundruð manna lífið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Miklar skemmdir urðu í skjálftanum í Ekvador. Þessi mynd er frá bænum Pedemales þar sem bifreið varð undir þegar bygging hrundi.
Miklar skemmdir urðu í skjálftanum í Ekvador. Þessi mynd er frá bænum Pedemales þar sem bifreið varð undir þegar bygging hrundi. vísir/EPA
Harður jarðskjálfti kostaði að minnsta kosti 235 lífið í Ekvador um helgina, að því er vitað var síðdegis. Meira en 1.500 manns urðu fyrir meiðslum og eignatjónið varð mikið.

Björgunarmenn í þúsundatali héldu á verstu hamfarasvæðin til að leita þar í rústum að fólki, sem vera kynni á lífi. Þar á meðal eru fjögur þúsund lögreglumenn sem fluttir voru þangað með þyrlum og fólksflutningabílum.

Erfitt var að komast að sumum þeim svæðum sem verst urðu úti vegna aurskriða sem fallið höfðu og hindruðu för björgunarfólksins. Margir helstu þjóðvegir landsins voru lokaðir.

Meðal annars hrundi veggur á fangelsi, þannig að fjöldi fanga slapp út og voru margir ófundnir síðdegis í gær.

Rafael Correa forseti lýsti yfir neyðarástandi í landinu og flýtti sér heim frá Róm, þar sem hann var í opinberri heimsókn.

Jarðskjálftinn reið yfir rétt fyrir klukkan níu á laugardagskvöldi að staðartíma, en þá var klukkan rétt fyrir tólf á miðnætti hér á landi.

Upptökin voru á 19 kílómetra dýpi á strjálbýlu svæði við Kyrrahafsströndina, í 27 km fjarlægð frá bænum Muisne í Esmeraldas-héraði. Bæirnir Manta og Pedernales, báðir í næsta nágrenni, urðu verst úti.

Skjálftinn mældist 7,8 stig og er sá versti í sögu Ekvadors í nærri 40 ár, eða frá því skjálfti af stærðinni 8,2 stig reið þar yfir.

Talið er að meira en fimmtán milljón manns hafi fundið fyrir skjálftanum, eða nánast allir íbúar landsins. Hátt í tvær milljónir manna búa á svæðum þar sem hann fannst mjög vel.

Tugir húsa hrundu að mestu til grunna, þar á meðal nokkrar íbúðablokkir.

Nokkuð algengt er að skjálftar af stærðinni sjö stig eða þar yfir verði á þessum slóðum. Frá árinu 1970 hafa sjö slíkir skjálftar orðið á svæði sem er innan við 250 kílómetra frá upptökum skjálftans nú um  helgina.

Þessir skjálftar urðu allir á flekasamskeytum við vesturströnd Suður-Ameríku.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×