Erlent

233 látnir eftir jarðskjálftann í Ekvador

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Óttast er að tala látinna muni hækka eftir því sem líður á.
Óttast er að tala látinna muni hækka eftir því sem líður á. Vísir/AFP
Að minnsta kosti 233 eru látnir og fimm hundruð slasaðir eftir jarðskjálftann öfluga sem reið yfir Ekvador í nótt. Skjálftinn mældist 7,8 að stærð og er sá öflugasti í landinu frá árinu 1979.

Skjálftinn var öflugur og fannst alla leið til Kólumbíu. Búið er að kalla út um tíu þúsund hermenn og þrjú þúsund lögreglumenn til þess að aðstoða björgunaraðgerðir í svæðunum sem verst urðu úti en skriðuföll hafa tafið för þeirra þangað.

Skemmdir eftir jarðskjálftann eru miklar, tugir bygginga hafa hrunið og að minnsta kosti ein brú. Þá segir borgarstjóri borgarinnar Pedernales, sem er nálægt upptökum skjálftans, að hún sé nærri því flöt eftir skjálftann.

Strandsvæði í norðvestur-hluta landsins urðu verst úti og telja embættismenn að líklegt sé að tala látinna muni hækka. Fjórir íslenskir skiptinemar eru staddir í Ekvador á vegum AFS-samtakanna en samtökin hafa fengið það staðfest að öll fjögur eru óhult.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×