Eiður Smári Guðjohnsen lagði upp sigurmark Molde í Íslendingaslag í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Molde vann 2-1 sigur á Bodø/Glimt í dag, en Henrik Furebotn kom Bodø/Glimt yfir á fyrstu mínútu leiksins.
Thomas Amang jafnaði fyrir Molde í upphafi síðari hálfleiks þegar hann kom boltanum framhjá Hannesi Halldórssyni í marki Bodø.
Sigurmarkið skoraði svo Per Egil Flo á 52. mínútu eftir undirbúning Eiðs Smára og þriðji sigur Molde í fimm leikjum staðreynd.
Molde er með ellefu stig eftir fyrstu fimm leikina, en þeir hafa enn ekki tapað leik (þrír sigrar, tvö jafntefli). Bodø/Glimt er í fimmta sætinu með sjö stig (tveir sigrar, eitt jafntefli, tvö töp).

