Innlent

Fleiri reyna skipulagt að svíkja undan skatti

Bjarki Ármannsson skrifar
Skattrannsóknarstjóri segir vísbendingar um aukna skipulagða brotastarfsemi á sviði skattalaga hér á landi. Umfangsmikil rannsókn á nokkrum verktakafyrirtækjum er eitt mál af um það bil tuttugu sem embættið hefur haft til rannsóknar í byggingariðnaðinum.

Greint var frá því í gær að níu manns hefðu verið handteknir í umfangsmiklum aðgerðum héraðssaksóknara og lögreglu í vikunni. Aðgerðirnar sneru að rannsókn á stórfelldum skattalaga- og bókhaldsbrotum hjá nokkrum verktakafyrirtækjum í byggingariðnaðinum.

Fimm eru enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins en heildarupphæðin sem talið er að hafi verið skotið undan nemur nærri milljarði króna. 

Málið kom upp við eftirlit skattrannsóknarstjóra og er eitt af um tuttugu málum sem embættið hefur haft til rannsóknar í byggingariðnaðinum. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir mörg þeirra mála varða háar upphæðir.

„Í mörgum þeirra tilvika er grunur um að skipulagða brotastarfsemi sé að ræða, það er að segja að verið sé með skipulögðum hætti að ná út fjármunum úr ríkissjóði,“ segir Bryndís. „Yfirleitt með þeim hætti að ekki er gerð grein fyrir virðisaukaskatti eða þá að innskattur er færður til frádráttar með óréttmætum hætti. Og stundum þannig að keðja undirverktaka sé sett upp í því skyni.“

Bryndís segir að svo virðist sem meira sé nú um skipulagða brotastarfsemi sem þessa, þar sem fyrirtæki vinna markvisst að því að ná fjármunum úr ríkissjóði. Þau mál geti reynst erfið rannsóknar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×