Erlent

Trúarbragðalögreglu Sádi-Arabíu skipað að hegða sér á „varfærinn og manneskjulegan“ hátt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa gefið út nýja tilskipun sem ætlað er að skerða völd hinnar valdamiklu trúarbragðalögreglu þar í landi.
Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa gefið út nýja tilskipun sem ætlað er að skerða völd hinnar valdamiklu trúarbragðalögreglu þar í landi. Vísir/AFP
Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa gefið út nýja tilskipun sem ætlað er að skerða völd hinnar valdamiklu trúarbragðalögreglu þar í landi. Samkvæmt nýju tilskipunni þurfa meðlimir hennar að haga sér á „varfærinn og manneskjulegan“ hátt.

Trúarbragðalögreglan hefur það hlutverk að ganga úr skugga um að íbúar og gestir Sádi-Arabíu fylgi hinum íhaldssama íslamska sið sem þar ríkir. Hefur hún verið gagnrýnd fyrir harkalegar, og oft á tíðum banvænar, aðferðir sínar við að framfylgja siðum Sádí-Arabíu.

Nýja tilskipunin virðist vera liður í því að skerpa á hlutverki hinnar venjulegu lögreglu og svo trúarbragðalögreglunnar. Í henni segir að það sé hlutverk hinnar venjulegu lögreglu, en ekki trúarbragðalögreglunnar, að handtaka fólk.

Trúarbragðalögreglan er valdamikil og í henni eru um fimm þúsund meðlimir. Hafa þeir það hlutverk að fylgjast með opinberum rýmum á borð við verslunarmiðstöðvar og almenningsgarða. Reynir að hún að koma í veg fyrir að menn og konur hittist á almannafæri auk þess sem að hún gengur úr skugga um að verslanir loki á meðan bænahaldi stendur.

Konur að hafa á undanförnum árum risið upp gegn trúarbragðalögreglunni í auknum mæli og svarað henni fullum hálsi er meðlimir hennar hafa haft afskipti af þeim.

Hefur trúarbragðalögreglan oft á tíðum stöðvað menn og konur sem ferðast saman í bíl og krafist þess að sjá sönnun þess að viðkomandi séu gift. Hin nýja tilskipun virðist vera ætluð til þess að stöðva þetta en þó liggur ekki ljóst fyrir hver muni sjá til þess að henni sé framfylgt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×