Erlent

Rússneskar herþotur flugu ískyggilega nálægt bandarísku herskipi á Eystrasaltinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mynd sem Bandaríkjaher hefur birt af atvikinu.
Mynd sem Bandaríkjaher hefur birt af atvikinu. Mynd/EUCOM
Tvær rússneskar herþotur flugu ítrekað ískyggilega nálægt bandaríska herskipinu USS Donald Cook í vikunni. Skipið er statt á Eystrasaltinu og segir skipstjóri skipsins að svo virðist sem að þoturnar hafi verið að æfa árás.

Skipið var statt á alþjóðlegu hafsvæði í Eystrasaltinu þegar herþoturnar, rússneskar Sukhoi SU-24, flugu allt að 12 sinnum yfir skipið. Atvikin áttu sér stað á mánudag og þriðjudag en engin vopn voru sjáanleg á þotunum. Skipstjóri herskipsins segir að líklega hafi herþoturnar verið að herma eftir árás á skipið.

Talsmaður bandaríska hersins sagði að atvikið væri ein árásargjarnasta hegðun rússneska hersins sem sést hafi að undanförnu. Í yfirlýsingu frá bandaríska hernum kom fram að flug rússnesku herþotnanna svo nálægt bandarískum herskipum væri óásættanlegt og líklegt til þess að skapa aukna spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands.

Á síðasta ári þurftu flugsveitir Atlandshafsbandalagsins að grípa til yfir 250 aðgerða vegna flugferða rússneska hersins yfir evrópskri lofthelgi. Loftrýmisgæslan í Eystrasaltsríkjunum sá um megnið af þessum aðgerðum.

Sjá má myndband af einu atvikinu hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

NATO stendur í ströngu

Flugsveitir bandalagsins ekki þurft að grípa til jafn margra aðgerða gegn flugi flugsveita rússneska hersins síðan kalda stríðinu lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×