Erlent

Forseti Brasilíu fordæmir „tilraun til byltingar“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Dilma Rousseff.
Dilma Rousseff. vísir/epa
Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, hefur fordæmt það sem hún kallar „byltingartilraun“ gegn sér. Hún hefur ýjað að því að varaforseti hennar, Michel Terner, sé einn samsærismannanna. Þetta kemur fram á vef BBC.

Fyrr í dag mælti þingnefnd með því að Rousseff yrði sótt til saka fyrir að brjóta gegn lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Forsetinn liggur undir grun um að hafa notað fé úr ríkisbanka til að rétta hallarekstur á framboði hennar. Þá er hún einnig grunuð um að hafa seilst í opinbera sjóði til að láta efnahag landsins líta betur út en það var gert til að auka líkur hennar á endurkjöri.

„Andstæðingar mínir eru nú, í allra augsýn, að vinna að því að velta löglega kjörnum forseta úr sessi,“ segir Rousseff.

Milljónir íbúa landsins hafa að undanförnu kallað eftir afsögn Rousseff vegna málsins. Á sunnudag tekur neðri deild þingsins afstöðu til þess hvort gefa eigi út ákæru á hendur forsetanum vegna málsins eður ei. Tvo þriðju hluta atkvæða þarf til að málið gangi til öldungadeildarinnar. Í öldungadeildinni nægir að meirihluti þingmanna samþykki ákæruna.

Viðbúnaður verður aukinn við þinghúsið vegna málsins á sunnudag en gert er ráð fyrir að mótmælendur muni telja hátt í hundrað þúsund.


Tengdar fréttir

Vilja sækja Rousseff til saka

Nefnd á brasilíska þinginu samþykkti í gær að unnið skuli að því að lögsækja sitjandi forseta landsins, Dilmu Rousseff. Nefndin samþykkti tillöguna með 38 atkvæðum gegn 27 en hún er sökuð um að hafa fegrað bókhald ríkisins til þess að fela fjárlagahallann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×