Viðskipti innlent

Segja H&M á leið til Íslands

Bjarki Ármannsson skrifar
H&M er einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga í verslunarferðum til útlanda. Frá verslun H&M í Stokkhólmi.
H&M er einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga í verslunarferðum til útlanda. Frá verslun H&M í Stokkhólmi. Vísir/Getty
Fullyrt er í frétt DV í dag að sænska fataverslunarkeðjan H&M muni opna tvær verslanir á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum, aðra í Smáralindinni og hina á jarðhæð Hafnartorgs, sem á að opna árið 2018.

DV segir formlegar viðræður milli fasteignafélagsins Regins og sænska fatarisans hafa hafist í síðustu viku og leigusamningar séu nú klárir. Hvorugur aðilinn staðfestir það þó við DV.

H&M er einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga í verslunarferðum til útlanda og hefur verið um árabil. Margoft hafa fréttir verið fluttar af því að fyrirtækið sé mögulega að fara að opna verslanir hér á landi en ekki orðið af því.

Sjá einnig: H&M segist ekki vera á leiðinni til landsins

„Þetta er gríðarlega stórt alþjóðlegt fyrirtæki og þeir hafa sína stefnu varðandi opnanir,“ sagði Sturla Gunnar Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Smáralindarinnar, við Vísi í fyrra þegar orðrómur um komu H&M til landsins fór af stað.

„Þeir eiga eftir að opna á mörkuðum sem eru greinilega meira spennandi en íslenski markaðurinn,“ sagði Sturla.

H&M nýtur vinsælda fyrir lágt vöruverð og mikið úrval en hefur einnig verið gagnrýnt fyrir það að greiða starfsfólki sínu í suðaustur-Asíu lúsarlaun og fyrir óboðlegar vinnuaðstæður.


Tengdar fréttir

Fagna of snemma: „Velkomin til Íslands“

"OMG!!!!! GEÐVEIKT !!!!“ eru á meðal viðbragða Íslendinga sem geta ekki beðið eftir því að fatabúðin H&M opni verslun á Íslandi. En á því gæti orðið nokkur bið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×