Erlent

Sérstakur geðsjúkrabíll fyrir þá sem glíma við andleg veikindi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Verkefnið er sex mánaða gamalt.
Verkefnið er sex mánaða gamalt.
Nýtt framtak í heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð hefur vakið athygli að undanförnu en sjúkrahús á Vestur-Gotlandi hefur um hálfs árs skeið starfrækt geðsjúkrabíl. Geðsjúkrabíllinn sinnir, eins og nafnið gefur til kynna, þeim útköllum sem varða neyðarástand þegar kemur að geðheilbrigði, svosem þunglyndi, sjálfsvígshugsunum, geðrofi eða annað. Í bílnum starfa hjúkrunarfræðingur og geðhjúkrunarfræðingur.

Í frétt á vefsíðunni Vardfokus er fjallað um framtakið. Þar kemur fram að með geðsjúkrabílnum sé hægt að taka á málunum á heimili viðkomandi sjúklings og grípa til skilvirkari aðgerða en ella vegna þeirrar sérkunnáttu sem felst í þjónustunni.

Rannsóknir hafa sýnt að í aðeins tuttugu prósent tilvika þurfi sjúklingur aðhlynningu á bráðamóttöku, það er að segja aðhlynningu umfram það sem starfsmenn geðsjúkrabílsins geta veitt.

Sérhæfnin mikilvæg

Um er að ræða samstarfsverkefni milli sjúkrabílsins og geðdeild spítalans í Gautaborg og er markmiðið einfaldlega að koma betur til móts við þá sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma. Verkefnið er fjármagnað af ríkinu og hefur því verið tryggt fjármagn út árið.

„Við tryggjum að til staðar sé sérhæfni til þess að meðhöndla sjúklinginn beint og að starfskrafturinn búi yfir nægri reynslu svo hægt sé að taka réttar ákvarðanir,“ segir Tony Stromberg, hjúkrunarfræðingur í geðsjúkrabílnum.

Á Íslandi eru enn sem komið er engir bílar sem gegna þessu hlutverki.Vísir/Ernir
„Þegar það er ekki sérfræðingur í geðheilbrigði viðstaddur þá keyrum við sjúklingana frekar á bráðamóttöku því að við viljum aldrei taka þá áhættu að við tökum ranga ákvörðun.“ Hann hefur tekið eftir því að sjúklingarnir bregðast öðruvísi við þegar þeir sjá að það er manneskja að meðhöndla þá sem þekkir og skilur veikindin sem þeir glíma við. Stromberg starfar ásamt geðhjúkrunarfræðingnum Petra Andreasson. 

Flest útköll varða kvíðasjúklinga og sjúklinga með sjálfsvígshugleiðingar. Að meðaltali berast tíu til tólf slíkar hringingar á dag. Flestar hringingar berast frá ungu fólki og oftast seint á kvöldin. 

Andreasson segir samtal um líðan sjúklingsins eða væg róandi lyf stundum geta lagfært aðstæður.

„Stundum hringjum við í sjúklinginn daginn eftir til þess að athuga með líðan hans.“ En önnur skipti eru alvarlegri og þá skiptir máli að hafa hjúkrunarfræðing sem hefur sérhæfni og reynslu til þess að sjá hvenær sjúklingur er svo illa haldinn að hann þarf að vera lagður inn á spítala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×