Erlent

Ráðherra segir ekkert rangt við að græða

Guðsteinn Bjarnason skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, heldur til þings í gær þar sem hann brást við gagnrýni.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, heldur til þings í gær þar sem hann brást við gagnrýni. Nordicphotos/AFP
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, brást við uppljóstrunum úr Panamaskjölunum í gær með því að boða strangari reglur um skattsvik.

Jafnframt stóð hann fast á því að það geti ekki verið glæpur að eignast auðæfi: „Við eigum að verja rétt allra breskra ríkisborgara til þess að græða peninga,“ sagði hann á þingi, þar sem hann svaraði gagnrýni vegna tengsla við aflandsfyrirtæki föður síns.

Hann segist sjálfur hafa selt öll hlutabréf sín árið 2010, þegar hann tók við embætti forsætisráðherra. Ástæðan hafi verið sú að hann hafi viljað tryggja að enginn hagsmunaárekstur gæti orðið: „Einfaldasta og skýrasta leiðin til að gera það var að selja öll hlutabréfin mín.“

Cameron birti um helgina yfirlitstölur úr skattframtali sínu. Hann sagði þetta nauðsynlegt en fordæmalaust. Hins vegar eigi ekki að vera nauðsynlegt að allir þingmenn fylgi þessu fordæmi, en sterk rök séu fyrir því að bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra, ásamt leiðtoga stjórnarandstöðunnar og fjármálaráðherra skuggastjórnar stjórnarandstöðunnar eigi að birta opinberlega upplýsingar úr skattframtölum sínum.

Í gær kom í ljós að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hafði skilað skattskýrslu sinni viku eftir að skilafrestur rann út þann 31. janúar síðastliðinn, og þurfti að greiða hundrað pund í sekt fyrir vikið.

Corbyn birti svo afrit af skattskýrslu sinni í gær, meðan Cameron var í ræðustól.

David Osborne, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Camerons, birti einnig tölur úr skattframtali sínu í gær.

Á morgun koma embættismenn frá nærri 50 löndum saman í París á vegum OECD til að ræða hvernig bregðast eigi við uppljóstrunum úr Panamaskjölunum.

Ætlunin er að efla samstarf gegn skattsvikum og auðvelda skipti á upplýsingum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. apríl


Tengdar fréttir

Cameron ræðir mál sín í þinginu

David Cameron forsætisráðherra Breta á erfiðan dag fyrir höndum þegar hann mætir í þingið í fyrsta sinn frá því upp komst að hann hafi hagnast á aflandsfélagi sem var í eigu föður hans sem nú er látinn. Cameron ætlar í dag að skýra frá fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að refsa fyrirtækjum sem hvetja til skattaundandskota eða hjálpa starfsfólki sínu við að stunda slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×