Í dóminum hafði húsfélag nokkurra húsa í Skuggahverfinu stefnt hjónum sem leigja út þrjár íbúðir í húsunum í atvinnuskyni til ferðamanna.
Niðurstaða dómsins var sú að hagnýting þeirra á íbúðunum hefði haft svo verulegt ónæði, óþægindi og röskun í för með sér fyrir aðra eigendur í húsinu að sú hagnýting skyldi háð samþykki allra eigenda þess. Fjöldi eigna í umræddu húsunum er um 95.

Hjónin höfðu stofnað félag um reksturinn og fram kom í dóminum að álagning fasteignagjalda hefði miðast við að um atvinnuhúsnæði væri að ræða. Dómurinn taldi einnig að hjónin nýttu íbúðirnar ekki lengur sem íbúðarhúsnæði, heldur atvinnuhúsnæði, og að það fæli í sér breytingu á hagnýtingu eignarinnar í skilningi fjöleignarhúsalaga.
Auður telur að draga megi þá ályktun af dóminum að umfangið geti skipt máli. „Hér er ekki bara um eina íbúð að ræða heldur þrjár og auk þess hafa þau stofnað félag um reksturinn og borgað fasteignagjöld eins og um atvinnuhúsnæði væri að ræða,“ segir Auður og bætir við að í málum sem þessum sé nauðsynlegt að meta hvert tilvik fyrir sig.
Aðspurð hvort dómurinn gæti haft áhrif á annars konar atvinnurekstur í fjölbýlishúsum, til dæmis dagvistun barna, segir Auður að sú starfsemi sé einnig leyfisskyld og sé óumdeilanlega atvinnustarfsemi. „Þar er ekki talið að þörf sé á samþykki allra eigenda þó það feli í sér meiri umgang og starfseminni fylgi mögulega ónæði. Þá er það samt ekki nógu mikið til að það útheimti samþykki allra,“ segir Auður.
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 11. apríl.