Erlent

Yfirvöld í N-Kóreu reiðubúin til þess að stöðva þróun kjarnorkuvopna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Yfirvöld í Norður-Kóreu eru reiðubúin til þess að stöðva kjarnorkuvopnatilraunir sínar svo lengi sem Bandaríkjamenn hætti við árlegar heræfingar sínar með S-Kóreumönnum. Utanríkisráðherra landsins segir þó að N-Kórea sé í fullum rétti til þess að þróa sín eigin kjarnorkuvopn.

Ri Su Yong, utanríkisráðherra N-Kóreu settist niður með blaðamanni Associated Press um helgina. Þar sagði hann að kjarnorkuvopnaþróun ríkisins væri ekkert nema nauðvörn vegna þrýstings frá Bandaríkjunum. Varaði hann við því að núverandi árekstrar ríkjanna myndu enda með ósköpum og að ef Bandaríkin væru reiðubúin til þess að draga úrfjandsamlegri hegðun í garð N-Kóreu væru yfirvöld þar í landi tilbúin til þess að gera slíkt hið sama.

Minntist hann sérstaklega á árlegar heræfingar sem Bandaríkin halda í samvinnu við yfirvöld í S-Kóreu en æfingin í ár er sú stærsta sem haldin hefur verið og munu allt að þrjú hundruð þúsund hermenn taka þátt í henni. Yfirvöld í Bandaríkjunum og S-Kóreu segja að æfingin sé svar við kjarnorkuvopnatilraunum N-Kóreumanna.

Kóreuskagi hefur verið á suðupunkti undanfarið ár og hafa samskipti á milli norður og suður-Kóreu sjaldan verið jafn dræm og nú. Segja yfirvöld í Suður-Kóreu segja að Norður-Kóreumenn geta komið kjarnorkuvopni fyrir á eldflaugum sem drífa um tvö þúsund kílómetra. Með því gætu þeir skotið vopnum að Suður-Kóreu, Japan, Kína og Rússlandi.

Þá segja talsmenn varnarmálaráðuneytis Suður-Kóreu að nágrönnum þeirra í norðri hafi tekist að skjóta flugskeyti af kafbáti undan ströndum Norður-Kóreu í dag.

Spurður að því hvort að líklegt væri að norður-kóreska stjórnin myndi falla vegna utanaðkomandi þrýstings og viskiptaþvinganna var svar Ri Su Yong einfalt. „Ekki halda niðri í ykkur andanum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×