Erlent

Skaut fimm til bana áður en hann svipti sig lífi

Karlmaður um fimmtugt er grunaður um að hafa skotið fimm til bana á tveimur heimilum í austurhluta Georgíu-ríkis í Bandaríkjunum í nótt. Maðurinn hafði svipt sig lífi áður en lögreglumenn komu að honum.

Talsmaður fógetaembættisins í Kólumbíusýslu sagði við fréttamenn í morgun að lögreglumenn hafi fundið lík tveggja kvenna og karlmanns á heimili í bænum Appling í gærkvöldi. Önnur kvennanna var á níræðisaldri.

Skömmu síðar hafi borist tilkynning um skothvelli í um eins kílómetra fjarlægð. Þar höfðu karl og kona einnig verið skotin til bana.

Um 40 mínútur liðu á milli árásanna og talið er að þær tengist.

Fram kom í máli talsmanns embættisins að hinn fimmtugi Wayne Anthony Hawes sé talinn hafa borið ábyrgð á ódæðunum. Skömmu eftir miðnætti að staðartíma hafi lögreglan brotið sér leið inn á heimili hans þar sem hann fannst látinn. Maðurinn hafði framið sjálfsmorð og við nánari grenslan kom í ljós að hann hafi reynt að kveikja árangurslaust í húsi sínu.

Talið er að einhver hinna látnu hafi verið skyldmenni eiginkonu Hawes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×