Erlent

Fölsuð vörumerki geta verið hagvexti skeinuhætt

Sæunn Gísladóttir skrifar
Vinsælustu vörurnar með fölsuðum vörumerkjum eru skór, og er Nike ein vinsælasta tegundin.
Vinsælustu vörurnar með fölsuðum vörumerkjum eru skór, og er Nike ein vinsælasta tegundin.
Vörum frá fölsuðum vörumerkjum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og er markaðurinn fyrir vörurnar nú metinn á allt að 461 milljarð bandaríkjadala, jafnvirði 17.000 milljarða íslenskra króna, samkvæmt nýrri skýrslu frá efnahags- og framfarastofnuninni OECD.

Á fimm árum hækkaði hlutdeild falsaðra vara í heimsviðskiptum úr 1,9 prósentum árið 2008 í 2,5 prósent árið 2013. Markaðurinn er orðinn jafn stór og hagkerfi Austurríkis.

Vinsælustu merkin til fölsunar eru Rolex, Nike, Ray Ban og Louis Vuitton. Vinsælast er að falsa vörumerki á skóm, og svo fatnaði og leðurvörum, til dæmis á veskjum.

Í skýrslu OECD kemur fram að Kína er vinsælasti staðurinn til að framleiða falsaðar vörur og selja þær. Vörur með fölsuðum vörumerkjum eru fimm prósent af heildarinnflutningi í Evrópu.

Í skýrslunni segir að þrátt fyrir að lítill skaði virðist vera af því að kaupa vöru með fölsuðu vörumerki eða kvikmynd sem er búið að afrita (e. pirating) geti slík hegðun haft neikvæð efnahagsleg áhrif með því að draga úr þróun og koma í veg fyrir aukinn hagvöxt. Auk þess er bent á að fölsuð lyf og barnaleikföng geti haft verulegan heilsuskaða í för með sér.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 21. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×