Erlent

Lögreglan misst tökin í 55 hverfum í Svíþjóð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Fjölmörg hverfi borga í Svíþjóð hafa verið skilgreind sem óörugg af lögreglu þar í landi. Gengi ungmenna virðast ráða þar og lögreglan fer ekki í hverfin nema með miklum viðbúnaði. Grjóti er beint gegn lögreglu og jafnvel skotvopnum og handsprengjum.

Kort yfir hverfin 55 tekið úr skýrslu lögreglunnar í Svíþjóð frá 2014.
Nú hafa 55 hverfi í 22 borgum í suðurhluta Svíþjóðar verið skráð sem óörugg, en árið 1990 voru þau þrjú.

Í ítarlegri umfjöllun NRK um hverfin kemur fram að þessi hverfi einkennist af miklu atvinnuleysi og að ungmenni hætti gjarnan í skólum þar.

Rætt er við lögreglukonuna Biljana Flyberg sem fer ekki í umrædd hverfi án þess að vera vopnuð og í skotheldu vesti. Hún segir glæpagengin verða sífellt betur búin. Stundum sé lögreglan kölluð til í þessum hverfum með því markmiði að leggja gildru fyrir lögregluþjóna.

Varðstjóri í Stokkhólmi segir frá því þegar handsprengju var kastað að rútu lögreglunnar. Sem betur fer hafi hún verið brynvarin, því annars hefðu margir lögregluþjónar látið lífið.

Hann segir glæpagengin notast við útsendara á jöðrum umræddra hverfa og þeir láti yfirmenn sína vita þegar lögreglan nálgast.

Hagfræðingurinn Tino Sanandaji, sem NRK ræddi við segir þetta til marks um að stjórnvöldum hafi mistekist aðlaga innflytjendur að sænsku samfélagi.

Þeir eigi erfitt með að finna störf og endi þess vegna á lægstu þrepum samfélagsstigans. Það auki á núning innan samfélagsins og ýti undir reiði og frekari einangrun.

Starfsmenn miðilsins ræddu við Sanandaji á kaffihúsi í hverfi þar sem um 80 prósent íbúa eru í innflytjendur frá Asíu og Afríku. Í miðju viðtalinu veittist hópur ungmenna að þeim svo þeir þurftu að flýja frá kaffihúsinu.

Sanandaji segir ljóst að stjórnmálamenn í Svíþjóð neiti að viðurkenna að innflytjendastefna landsins hafi misheppnast. Ójöfnuður hafi aukist gífurlega í landinu og fylkingamyndun hafi verið gífurleg.

Þáttinn má sjá hér að neðan, en texta vantar að mestu eða hann er á sænsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×