Fótbolti

Gunnleifur: Er miður mín

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnleifur og Ólafur Ingi voru ekki valdir í lokahópinn.
Gunnleifur og Ólafur Ingi voru ekki valdir í lokahópinn. vísir/stefán
Gunnleifur Gunnleifsson og Ólafur Ingi Skúlason voru meðal þeirra sem urðu að bíta í það súra epli að komast ekki í lokahóp íslenska landsliðsins sem fer á EM í Frakklandi í næsta mánuði.

Gunnleifur og Ólafur Ingi hafa verið lengi viðloðandi landsliðið og voru að vonum svekktir með að hafa ekki hlotið náð fyrir augum landsliðsþjálfaranna, Heimis Hallgrímssonar og Lars Lagerbäck.

„Er miður mín að fá ekki að taka þátt í þessu ævintýri, en óska 23 frábærum leikmönnum til hamingju með valið á EM. Ég er samt alltaf klár,“ skrifaði Gunnleifur á Twitter fyrir skemmstu.

Ólafur Ingi tók svipaðan pól í hæðina á sinni Twitter-síðu:

„Ber höfuðið hátt er að spila fyrir gott lið í góðri deild, ef það er ekki nóg þá verður bara að hafa það. Það voru forréttindi að fá að taka þátt í undankeppninni með þessu frábæra liði. Óska öllum strákunum alls hins besta í sumar. ÁFRAM ÍSLAND.“

Gunnleifur og Ólafur Ingi eru báðir á lista yfir þá sex leikmenn sem eru til vara og gætu komið inn í hópinn ef á þarf að halda.


Tengdar fréttir

Lagerbäck hættir eftir EM

Tilkynnti á blaðamannafundi í dag að hann mun ekki endurnýja samning sinn við KSÍ eftir EM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×