Erlent

Um fimmtungur heimila varð eldi að bráð í Fort McMurray

Birgir Olgeirsson skrifar
Þingmaður segir ástandið við Fort McMurray mun skárra en talið var í upphafi.
Þingmaður segir ástandið við Fort McMurray mun skárra en talið var í upphafi. Vísir/EPA
Um fimmtungur heimila í og við borgina Fort McMurray í Kanada hefur orðið skógareldum að bráð. Frá þessu er greint á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC sem hefur eftir kanadíska þingmanninum David Yurdiga að enduruppbyggingin gæti tekið mörg ár.

Rúmlega 100 þúsund íbúar borgarinnar og í nágrenni hennar var gert að rýma heimili sín og yfirgefa svæðið. Eldarnir hafa geisað í rúma viku en yfirvöld telja að hægt hafi á útbreiðslu þeirra yfir helgina.

Er talið að þeir nái nú yfir um sextánhundruð ferkílómetra svæði, en á laugardag náðu þeir yfir átjánhundruð ferkílómetra svæði.

Yurdiga sagði í samtali við BBC að ekki sé óhætt fyrir íbúa sem þurftu að yfirgefa heimili sín að snúa aftur.

„Um 20 prósent heimilanna varð eldi að bráð, en meirihluti þeirra stendur þó enn óskemmdur,“ sagði Yurdiga. „Ástandið er því mun skárra en talið var í upphafi.“


Tengdar fréttir

Úrhellisrigningar er þörf

Illa gengur að ráða niðurlögum gríðarlegra skógarelda sem lagt hafa bæinn Fort McMurray í Alberta í Kanada nánast í rúst. Úrhellisringingar er þörf í baráttunni við eldhafið en engin slík ofankoma er í kortunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×