Erlent

Hægir á útbreiðslu skógareldanna í Kanada

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rigning og þrotlaus vinna slökkviliðsmanna hefur skilað nokkrum árangri.
Rigning og þrotlaus vinna slökkviliðsmanna hefur skilað nokkrum árangri. Vísir/AFP
Hægt hefur á útbreiðslu hinna gríðarmiklu skógarelda sem nú geisa í Alberta í Kanada en slökkviliðsmönnum hefur gengið vel að berjast við eldana í dag.

Slökkviliðsmönnum hefur tekist að vernda lykilsvæði og ná skógareldarnir nú yfir 1.600 ferkílómetra svæði. Í gær náðu skógareldarnir yfir 1.800 ferkílómetra svæði.

Í dag hefur rignt í grennd við Fort McMurray sem auðveldað hefur slökkvistarfið. Yfirvöld vara þó við því að það geti tekið mánuði að ráða niðurlögum eldsins. Alls hafa yfir 100 þúsund íbúa bæjarins Fort McMurray flúið undan skógareldinum.

Fastlega má gera ráð fyrir að skógareldurinn verði kostnaðarsömustu náttúruhamfarir í sögu Kanada en alls hafa um 1.600 heimili orðið eldinum að bráð, hafa heilu hverfin brunnið til grunna í Fort McMurray.

Bærinn og það svæði sem orðið hefur eldinum að bráð er í grennd við helstu olíuvinnslusvæði Kanada. Þó ekki sé talin hætta á því að eldurinn nái til olíuvinnslustöðva hafa allir starfsmenn á svæðinu verið fluttir í burtu og því talið líklegt að skógareldarnir muni hafa talsverð áhrif á efnahag Kanada.


Tengdar fréttir

Úrhellisrigningar er þörf

Illa gengur að ráða niðurlögum gríðarlegra skógarelda sem lagt hafa bæinn Fort McMurray í Alberta í Kanada nánast í rúst. Úrhellisringingar er þörf í baráttunni við eldhafið en engin slík ofankoma er í kortunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×