Erlent

Olíumálaráðherra Sádí-Arabíu rekinn

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Uppsögnin er liður í uppstokkun í ríkisstjórn landsins.
Uppsögnin er liður í uppstokkun í ríkisstjórn landsins. vísir/epa
Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádí-Arabíu, var í dag rekinn úr starfi. Við starfinu tekur fráfarandi heilbrigðisráðherra, Khaled al-Faleh, en sá fyrrnefndi hefur gegnt embættinu síðastliðin tuttugu ár.

Uppsögnin er liður í uppstokkun í ríkisstjórn landsins eftir að boðaðar voru allsherjar efnahagslegar umbætur í síðasta mánuði. Áætlunin snýr meðal annars að því að Sádí-Arabía, stærsta olíuútflutningsríki heims, verði óháð olíuútflutningi. Þannig eigi að auka fjölbreytni í hagkerfinu með það fyrir augum að fjárfestingar knýi efnahagslífið frekar en olía.

Khaled al-Faleh hefur starfað í yfir þrjátíu ár hjá ríkisolíufyrirtækinu Aramco, sem er stærsta olíufyrirtæki heims og jafnframt talið það verðmætasta. al-Faleh mun sinna orkumálum, iðnaði og námugreftri.

Olíuverð hefur hríðlækkað á heimsmarkaði síðustu misserin. Verðhrunið hefur bitnað á olíuframleiðsluríkjum eins og Sádí-Arabíu, en um það bil sjötíu til áttatíu prósent af tekjum Sádí-Arabíu hafa komið frá olíusölu. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa fyrir vikið þurft að grípa til niðurskurðar, skuldabréfaútgáfu og erlendrar lántöku upp á tíu milljarða dala, að því er fram kemur í frásögn dagblaðsins The Wall Street Journal. Þá hefur verið gengið á gjaldeyrisvaraforða landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×