Innlent

Sorgmæddur formaður vegna sölu á Ásmundarsal

Snærós Sindradóttir skrifar
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM
„Við erum ótrúlega sorgmædd yfir þessu. Þetta lyktar af því að hafa verið ákveðið fyrirfram,“ segir Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM). ASÍ hefur selt Ásmundarsal þar sem Listasafn ASÍ hefur verið til húsa um árabil. Kaupendurnir eru fjárfestarnir Sigurbjörn Þorkelsson og Aðalheiður Magnúsdóttir og kaupverðið er 168 milljónir króna.

Tilkynnt var að til stæði að selja safnið þann 29. apríl síðastliðinn. Í gær, föstudag, var svo greint frá nýjum kaupendum.

„Okkur finnst ótrúlega skrýtið að ASÍ hafi ekki frestað sölunni fram á haust og farið í samtal við SÍM, ríki og borg. Við ætluðum að hittast á morgun [í dag] og athuga hvort við gætum sett af stað einhvers konar fjáröflun. Við vildum virkilega skoða alla möguleika en við þurfum lengri tíma en viku.“

Samkvæmt tilkynningu sem send var vegna sölunnar er markmiðið að húsið verði áfram nýtt undir lista- og menningarstarfsemi.

„Þó að kaupandinn segist ætla að vera með myndlist og hönnun þá er þetta komið í einkaeigu og þá verða það alltaf útvaldir sem fá að sýna. Alþýðusambandið selur húsið manni sem er einn ríkasti maður Íslands. Ég er eiginlega orðlaus mér finnst þetta svo leiðinlegt,“ segir Jóna Hlíf Halldórsdóttir.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 7. maí


Tengdar fréttir

Keyptu Ásmundarsal á 168 milljónir króna

Fjárfestarnir og hjónin Sigurbjörn Þorkelsson og Aðalheiður Magnúsdóttir borguðu 168 milljónir fyrir Ásmundarsal á Freyjugötu en þar hefur Listasafn ASÍ verið með starfsemi um árabil. Fasteignamat hússins er 78,7 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×