Erlent

Hommapróf í Kenía gagnrýnt

Samúel Karl Ólason skrifar
Samkynhneigð mætir miklum fórdómum í Kenía, en myndin er frá samstöðufundi trúarsamtaka gegn samkynhneigð í fyrra.
Samkynhneigð mætir miklum fórdómum í Kenía, en myndin er frá samstöðufundi trúarsamtaka gegn samkynhneigð í fyrra. Vísir/AFP
Tveir menn sem handteknir í Kenía vegna gruns um samkynhneigð þurftu að ganga í gegnum erfiðar prófanir hjá lögreglu. Til þess að sanna að mennirnir væru samkynhneigðir var endaþarmsop þeirra skoðað. Þar að auki var kannað hvort þeir væru smitaðir af HIV og lifrarbólgu.

Mennirnir hafa nú höfðað mál gegn ríkinu og fara fram á að dómstólar segi endaþarmsopsprófið ganga gegn stjórnarskrá landsins. Samkynhneigð er refsiverð með allt að 14 ára fangelsisdómi í Kenía.

Dómstólar í landinu hafa gefið ríkisstjórninni viku til að bregðast við málaferlunum.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa kallað eftir því að próf sem þessi verði bönnuð á heimsvísu. Þau gætu mögulega jafnast á við pyntingu samkvæmt alþjóðalögum.

„Athuganir sem þessar sanna ekkert og áorka engu, öðru en því að niðurlægja fólk.“ Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig gefið út að þetta þjóni engum tilgangi og muni ekki sýna fram á samkynhneigð.

Fordómar gegn samkynhneigð eru verulegir í Kenía og sagði aðstoðarforsætisráðherra landsins í fyrra að „ekkert pláss væri fyrir samkynhneigða“ í Kenía. Nokkrir einstaklingar hafa verið ákærðir fyrir samkynhneigð í landinu á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×