Gunnar var í viðtali við Helwani í tilefni af bardaga sínum við Albert Tumenov á UFC-bardagakvöldi í Rotterdam í Hollandi á sunnudagskvöld. Viðtalið hófst á spjalli þeirra um umrætt tré en málið hefur vakið mikla athygli í íslenskum fjölmiðlum eftir að Fréttablaðið fjallaði fyrst um það.
„Ég verð að taka ábyrgð á trénu. Ég lét fella það,“ sagði Gunnar í viðtalinu. „Það skondna er að ég vann eitt sinn fyrir manninn sem felldi tréð,“ sagði Gunnar sem samkvæmt því vann sjálfur við það að fella tré á einum tímapunkti.
Hann segir að það sé eðlilegt að fella tré sem þetta sem að sögn Haraldar, föður Gunnars, var aspartré.
Sjá einnig: Gunnar Nelson kærður fyrir að fella tré nágranna síns
„Ræturnar eyðileggja lagnir og skemma garða. Þetta voru þrjú tré - öll af sömu tegund. Tvö þeirra voru í mínum garði og eitt svo rétt innan lóðarmarka hans.“
„Ég hringdi í hann fyrir fjórum mánuðum og það var minn skilningur að það væri í lagi að fella tréð ef ég myndi borga fyrir það. Að það yrði gert honum að kostnaðarlausu.“
„En svo felldi ég það og hann fór í blöðin. Ég held að hann muni kæra. Ég veit það ekki, þetta er svolítið skrýtið.“
Gunnar er nú staddur í Dublin á Írlandi að æfa sig fyrir bardagann. „Ég þurfti að flýja Ísland vegna þessa máls,“ sagði hann í gríni.