Erlent

Líklega mannana verk

Birta Björnsdóttir skrifar
Vélin var á leið frá Charles de Gaulle flugvelli í París í Frakklandi til Kaíró í Egyptalandi. Hún mun hafa hrapað undan grísku eynni Karpathor eftir að hafa verið á flugi í þrjár klukkustundir og fjörutíu mínútur. Vélin var þá komin sextán kílómetra inn í egypska lögsögu og var um það bil 280 kílómetra norðan við strönd Egyptalands.

66 voru um borð í vélinni, þar af þrjátíu frá Egyptalandi og 15 franskir ríkisborgarar.

Panos Kammenos, varnarmálaráðherra Grikklands, greindi frá óvenjulegum hreyfingum flugvélarinnar, sem er af gerðinni Air­bus A320, á blaðamannafundi fyrr í dag.

„Klukkan 3.37 beygði flugvélin, sem var 16-24 kílómetra inni í lofthelgi Egyptalands, á egypsku flugstjórnarsvæði, í 37 þúsund feta hæð, 90 gráður til vinstri og síðan 360 gráður til hægri og lækkaði flugið úr 37 þúsund fetum í 15 þúsund fet og síðan hvarf ratsjármyndin sem við höfðum í 10 þúsund feta hæð," sagði Kammenos.

Ekkert hefur fengist staðfest um ástæður þess að vélin brotlenti. Banda­rísk­ir emb­ætt­is­menn viðruðu þá kenn­ingu við fréttastofu CNN í dag að þotan hafi verið sprengd upp. Yfirvöld í Egyptalandi segja að líklegra sé um að ræða mannana verk frekar en tæknilega bilun.

„Aðstæðurnar gætu bent til þess, og ég segi gætu því ég vil ekki vera með neinar getgátur eða draga ályktanir eins og aðrir, en ef maður greinir aðstæðurnar til hlítar er möguleikinn að um hryðjuverk hafi verið að ræða meiri en sá möguleiki að um tæknibilunhafi verið að ræða," Sherif Fat­hi, flug­málaráðherra Egypta­lands.

Ættingjar þeirra sem voru um borð í vélinni biðu í allan dag svara um afdrif ástvina sinna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×