Erlent

Fregnir af dauða pöndu stórlega ýktar

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn dýragarðsins í Taipei í Taívan notuðust við heldur óhefðbundna aðferð til að staðfesta að pandabjörninn Tuan Tuan væri á lífi í vikunni. Björninn var gjöf frá Kína til Taívan árið 2008 þegar nýr forseti sem taldist hliðhollur Kína var kosinn.

Fjölmiðlar í Kína höfðu birt fréttir um dauða Tuan Tuan sem er ellefu ára gamall.

Til þess að bregðast við þeim fregnum sviðsettu starfsmenn dýragarðsins svokallaða „proof of life“ mynd. Þeir tóku mynd af birninum á bak við lás og slá með dagblöð fyrir framan búrið, þar sem dagsetningar voru sýnilegar. Slíkar myndir eru fremur öllu tengdar við aðferðir mannræningja til að sanna að fórnarlömb sín séu á lífi.

Samkvæmt Guardian er Tuan Tuan og Yuan Yuan, birna sem einnig var gefin til Taívan, bæði við hestaheilsu, sem og afkvæmi þeirra Tuan Zai.

Í tilkynningu frá dýragarðinum segir að allir séu velkomnir til að heimsækja fjölskylduna. Fjölmiðlar í Kína hafa dregið fréttirnar til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×