Erlent

Hnefarnir tala á þinginu í Suður-Afríku

Samúel Karl Ólason skrifar
Til átaka kom á milli stjórnarandstöðuþingmanna og öryggisvarða á þingi Suður-Afríku í gær. Þingmennirnir ætluðu að koma í veg fyrir að Jacob Zuma, forseti landsins, gæti flutt erindi á þinginu. Um 20 þingmenn voru dregnir úr sætum sínum og fluttir úr þingsalnum.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni tilheyra þingmennirnir flokknum Economic Freedom Fighters, en Julius Malema, formaður þeirra, kallaði yfir salinn að réttast væri að henda Jacob Zuma út.

Eftir að þingmönnunum var hent út sagði Malema að ef öryggisverðirnir beittu ofbeldi yrði þeim svarað með ofbeldi.

Þrýstingur á Zuma hefur aukist verulega og verða kröfurnar um að hann segi af sér eða verði vikið úr embætti sífellt háværari. Æðsti dómstóll Suður-Afríku komst að þeirri niðurstöðu í mars að Zuma hefði brotið gegn stjórnarskrá landsins þegar hann notaði opinbera fjármuni til að byggja upp sveitasetur sitt.

Þá komst annar dómstóll að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að 800 kærur vegna spillingar varðandi vopnakaupasamning, væru löglegar. Þeim var vikið frá áriðo 2009, skömmu áður en Zuma varð forseti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×